Copy
Birtast myndirnar ekki? Skoða í vafra
19. janúar 2015

Gleðilegt ár! 

Nú er hleypt af
stokkunum fréttabréfi Samáls, samtaka álframleiðenda. 

 
Tilgangurinn er að miðla vísdómi og fróðleik um áliðnaðinn og stuðla með því að upplýstri umræðu. Af skoðanakönnun sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Samál má ráða, að þó að meirihluti landsmanna hafi jákvætt viðhorf til áliðnaðarins, þá skortir nokkuð á þekkingu almennings, en einungis fjórðungur landsmanna telur sig þekkja áliðnaðinn vel. Markmið Samáls er að bæta úr því og stuðla að meiri þekkingu á atvinnugrein, sem  telur hundruð fyrirtækja og þúsundir vinna við. Enda er það forsenda heilbrigðra skoðanaskipta um atvinnulífið að þau grundvallist á traustum upplýsingum og ígrunduðum rökum.
 

Um 100 milljarðar eftir í hagkerfinu

Áliðnaðurinn hefur verulegt vægi í efnahagslífinu. Álverin vörðu um 40 milljörðum í kaup á vörum og þjónustu árið 2012 af um 700 fyrirtækjum og í fyrra nam fjárhæðin yfir 30 milljörðum. Er þá raforka undanskilin. Þá fóru tæpir 20 milljarðar í laun og opinber gjöld. Þegar litið er til heildaráhrifa áliðnaðarins á efnahagslífið, þá stendur upp úr að árið 2013 urðu um 90 milljarðar eftir í íslensku hagkerfi, en árið 2012 voru það um 100 milljarðar. Ekki þarf að orðlengja hversu mikið munar um svo gríðarlegar gjaldeyristekjur, en til samanburðar má nefna að heildarkostnaður við rekstur Landspítalans á fjárlögum þessa árs er rúmir 40 milljarðar.
 

Eitt öflugasta raforkukerfi í heiminum

Þá hefur áliðnaðurinn gert Íslendingum kleift að byggja upp eitt öflugasta raforkukerfi í heiminum miðað við höfðatölu, en áliðnaðurinn er stærsti viðskiptavinur íslenskra orkufyrirtækja. Fyrir vikið býr almenningur nánast hvergi við lægra verð og afhendingaröryggi er með því besta sem þekkist. Og það þrátt fyrir að Ísland sé fámennt og strjálbýlt samfélag. Þetta er eitt form af arði sem Íslendingar njóta af orkuauðlindum sínum. Á síðasta ársfundi Landsvirkjunar kom fram að árið 2013 hefði verið eitt besta rekstrarár í sögu fyrirtækisins, það gæti að óbreyttum forsendum greitt upp skuldir sínar á rúmum níu árum og að arðsemisáætlanir hefðu staðist um Kárahnjúkavirkjun.

Það er ekki lítið samkeppnisforskot fyrir Íslendinga að búa við öflugan orku- og áliðnað.

Pétur Blöndal
framkvæmdastjóri Samáls

Áhersla á rannsóknir og nýsköpun
í stefnumótun álklasans

„Góða ímynd íslensks áliðnaðar má þakka því að þetta er þekkingariðnaður þar sem rannsóknir og miðlun þeirra örva nýsköpun og framþróun.“

Þannig hefst framtíðarsýn álklasans sem gefin var út samhliða stefnumótinu í lok nóvember, en hún var mótuð af um 40 fyrirtækjum og stofnunum sem komu saman á tveggja daga stefnumótunarfundi í Borgarnesi í apríl síðastliðnum. Þar er dregin upp mynd af því landslagi í áliðnaði sem stefna beri að árið 2020.  

 

Hér er stiklað á stóru í framtíðarsýn álklasans fyrir árið 2020:

 • Rannsóknir hafa sýnt fram á mikil jákvæð áhrif áliðnaðar á þjóðarhag og er almennt litið á iðnaðinn sem meginstoð í íslensku efnahagslífi. Áliðnaður er hluti af virðiskeðju raforkuframleiðslu sem skapar verðmæti og vinnu.
 • Á Íslandi hefur byggst upp mikil þekking í álframleiðslu sem tekist hefur að sameina í öflugu og sérhæfðu rannsókna- og þróunarsetri. Við setrið starfa fimm til tíu nýdoktorar og doktorsnemar.
 • Innan álklasans er öflugur alþjóðlegur hátækniiðnaður. Starfandi eru virðisaukandi framleiðslufyrirtæki sem hafa aukið vinnslu úr áli, endurvinnslu og ýtt undir vöruþróun.       
 • Fyrirtæki í áliðnaði sinna samfélagslegri ábyrgð sinni á eftirtektarverðan hátt og almenningur er meðvitaður um jákvæð áhrif þeirra á samfélagið.
 • Áliðnaðurinn er fyrirmynd í umhverfismálum. Engin úrgangsefni eru send til urðunar og allar aukaafurðir nýttar til verðmætasköpunar innanlands.
 • Ekkert land framleiðir ál sem hefur minna kolefnisspor og hefur það skapað forskot í markaðssetningu og verðmætasköpun.
 • Störf í áliðnaði eru eftirsótt og vel launuð. Starfsumhverfi er gott og öryggisvitund í hávegum höfð.
 • Náðst hafa metnaðarfull markmið um fullnýtingu. Allt sem til fellur í framleiðslu fyrirtækjanna er notað í aðra framleiðslu hérlendis og erlendis.
 • Í samstarfi við erlent þekkingarumhverfi og áliðnaðinn hefur byggst upp við íslenska háskóla öflugur hópur fræðimanna sem stundar rannsóknir á sviði málmframleiðslu og úrvinnslu.
 • Ál er notað í „snilldarlausnir“ sem fólk samsamar sig við.
 • Almenningur þekkir virðiskeðjuna og áttar sig á umfangi áliðnaðarins og þjóðhagslegu mikilvægi hans. Á því grundvallast jákvætt viðhorf almennings og stolt af orkumiklum áliðnaði með fjölbreyttum sóknarfærum.
 • Almenningur er meðvitaður um að vegna léttleika álsins er það vel til þess fallið að draga úr eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, til dæmis í byggingum og samgöngutækjum.
Tíu áhersluatriðum er haldið til haga í stefnumótuninni, en þeim var forgangsraðað á stefnumótunarfundinum í Borgarnesi. Þar er meðal annars kveðið á um stofnun rannsóknarseturs, eflingu rannsókna og kennslu um ál- og efnisvísindi í íslenskum háskólum, samhæft útflutningsátak álklasa, fullnýtingu aukaafurða og úrgangs, uppstokkun iðn- og verkmenntunar, rannsóknasjóð eða samkeppnissjóð um samstarf atvinnulífs og skóla og að álklasinn verði farvegur hugmynda, þarfa, tengslamiðlunar og nýsköpunar.

Fjölmennt stefnumót um nýsköpun í áliðnaði

 
Margt var um manninn á stefnumóti um nýsköpun í áliðnaði sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík í lok nóvember. Þar komu saman á sjöunda tug stofnana og fyrirtækja til fræðast um  nýsköpunarumhverfið og hlýða á röð örkynninga með hugmyndum að framþróun og nýsköpun í áliðnaði. Að því loknu hófst stefnumót þarfa og lausna, þar sem framsögumenn ræddu hugmyndir sínar við áhugasama í smærri hópum.  Það voru Samál, Samtök iðnaðarins og íslenski álklasinn sem stóðu að viðburðinum.
 
Örkynningarnar voru á rannsóknum og þróun af ýmsum toga, allt frá sérhæfðum lausnum fyrir framleiðsluferli í álverum til hugmynda sem sneru að úrvinnslu áls. Þetta var hið eiginlega stefnumót, þar sem lagt var upp með að leiða saman þarfir og lausnir í áliðnaði.

 

Ísbrú og fullnýting

Sumar sneru hugmyndirnar að framleiðsluferli álvera, svo sem fóðrun ofna, sjálfvirku hitaeftirliti og áhrifum brennisteins frá forskautum á straumnýtni í rafgreiningarkerjum. Aðrar lutu að fullnýtingu efna sem til falla við framleiðsluna, svo sem varmaendurvinnsla úr afgasi álvera, fullvinnsla gjalls og háhitaeinangrun fyrir rafgreiningarker. Enn aðrar að úrvinnslu áls, til dæmis þróun á álgaffli frá Lauf forks og loftræstikerfum frá Breather Ventilation.
 
Loks voru kynnt fjölbreytt verkefni á sviðum lista, hönnunar og öryggissamstarfs. Þar á meðal var samræming á öryggisnámskeiðum starfsmanna og verktaka, ísbrú sem er að grunni til úr áli, heimsóknir ungra hönnuða í álfyrirtæki og rannsóknarsetur á Austurlandi með sterkri áherslu á hönnun.
 

Þróunarsetur og þekkingarkvíar 

Í upphafi stefnumótsins var málþing um nýsköpunarumhverfið. Það hófst á erindi Ragnars Guðmundssonar forstjóra Norðuráls og stjórnarformanns Samáls, en þar kom fram að samgöngur til og frá landinu væru góðar og verulega aukinn áhugi á frekari vinnslu áls hér á landi. „Staðsetning Íslands, ekki síður en hversu umhverfisvæn framleiðslan er, er klárlega styrkur íslenskra álframleiðenda. Það má því segja að það sé heilmikil gerjun í gangi og sóknarfæri ef vel er haldið á málum.“
Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans bauð fólk einnig velkomið til stefnumóts. Hann nefndi til marks um mikilvægi áliðnaðar fyrir íslenskt efnahagslíf að í kringum áliðnaðinn hefði byggst upp gríðarlega öflugt raforkukerfi sem væri öfundarefni annarra þjóða. Mikilvægt væri hlú að þeim árangri sem náðst hefði, sækja fram og byggja öflugt rannsóknar- og þróunarstarf á sterkum grunni orkuiðnaðar.
„Þekkingarkvíar fyrir ál- og efnisiðnað“ var yfirskrift erindis Hilmars Braga Janussonar forseta verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Hilmar talaði um mikilvægi þess að safna saman þekkingu sem byggðist á hugverkum og stuðla að stefnumiðuðu samstarfi fyrirtækja í álklasanum við háskóla og rannsóknarstofnanir. 
 

Árangursrík nýsköpun

„Það er ánægjulegt að sjá svona marga hérna,“ sagði Þröstur Guðmundsson frá HRV og hóf mál sitt á almennum nótum. „Íslenskur áliðnaður á sér langa sögu á Íslandi og hefur stutt við menntun. Ég fékk til að mynda styrk frá Ísal til doktorsnáms fyrir 20 árum og fleiri fylgdu á eftir mér. Þá hafa fyrirtækin stutt við nemendur í lokaverkefnum bæði á BS- og meistarastigi, þar sem ég hef haft þau forréttindi að vera leiðbeinandi. Þegar ég var í doktorsnámi í Nottingham ásamt fjölda annarra doktorsnema í stórri verkfræðideild upplifði ég sterkt hvað rannsóknir geta verið öflugar og hversu stuðningur fyrirtækja er mikilvægur. Grunnurinn hefur verið lagður hér á landi. Nú þarf að byggja á honum.“ Þröstur lýsti svo þróun á kerréttingarvél í samstarfi við Norðurál, sem skilaði umhverfisvænni, ódýrari og hagnýtari lausn en áður.
 

Fleiri doktorsverkefni

 „Við viljum mennta og þjálfa fagfólk á meistara- og doktorsstigi sem getur stundað rannsóknir og unnið þróunarstarf á þessu sviði,“ sagði Guðrún Sævarsdóttir forseti tækni- og verkfræðideildar HR. Hún nefndi samstarf fyrirtækja, nýsköpunarmiðstöðvar og háskólasamfélagsins í Þrándheimi sem gott dæmi um vel heppnað samstarf á þessu sviði. „Út úr þessu samstarfi hafa komið 56 doktorsnemar á sautján árum, þar á meðal ég. Fjármögnunin er þá sótt til fyrirtækja og rannsóknarsjóða. Dæmi um verkefni af þessum toga er afsogskerfi fyrir töppun úr kísilofni, sem dró úr rykmengun frá verkmiðjunni og bætti vinnuumhverfi, en það hefur síðan verið selt til málmgeirans um allan heim.“ Guðrún sagði stefnumótið mikilvægan vettvang til að koma saman og móta verkefnahugmyndir með það að markmiði að koma þeim í framkvæmd – gera hugmyndir að veruleika.
 

Gerðar kröfur um árangur

Í máli Sigurðar Björnssonar sviðsstjóra á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís kom fram að unnið hefði verið að stefnumótun innan Rannís og Tækniþróunarsjóðs eftir að framlög ríkisins voru hækkuð. Einkum hefur áhersla á hagnýtar rannsóknar í samstarfi við atvinnulífið verið aukin og aðgengi að styrkjum auðveldað, en um leið sagði hann ferlið snarpara og kröfurnar meiri eftir að menn væru komnir inn fyrir þröskuld. „En styrkirnir verða líka öflugri. Þetta verður tengt íslensku atvinnulífi og gerðar kröfur um árangur. Það er það sem við erum að tala um – þetta íslenska atvinnulíf.“
Tækniþróunarsjóður hefur eyrnamerkt að minnsta kosti 50 milljónir á ári efnistækni. „Við köllum það sókn – nýsköpun á sviði efnistækni,“ sagði Sigurður. „Við gerum ráð fyrir að setjast með hagsmunaaðilum um hvernig við mótum þetta svið – hvaða kríteríur verða lagðar til grundvallar.“
 

Nýstofnað þróunarsetur í efnistækni

Nýstofnað þróunarsetur á sviði efnistækni var efni erindis Guðbjargar Óskarsdóttur verkefnisstjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. „Þar er blásið til sóknar með ál- og kísilvinnslu sem áherslusvið,“ sagði hún og sagði það meðal annars byggja á auknu fjármagni frá Tækniþróunarsjóði til hagnýtra rannsókna og hinsvegar aukinni áherslu á efnistækni.  „Þau verkefni sem við höfum staðið fyrir eða komið að sem ráðgjafar ná yfir vítt svið innan áliðnaðarins og fjölmargir sérfræðingar munu að einhverju leyti einbeita sér að starfi á sviði efnistækni.“
Hún segir þróunarsetrið fúst til samstarfs og að þar sé fjölbreytt þekking og reynsla. „Hlutverkið er annarsvegar að auka samstarf með samvinnu háskóla, fyrirtækja og stofnana og hinsvegar að auka verðmætasköpun í þessum geira. Þarna sjáum við fyrir okkur að rannsóknir, ráðgjöf og aðstaða geti komið sterkt inn.“ 
Share
Tweet
Forward
Copyright © 2015 Samál - Samtök álframleiðenda á Íslandi, All rights reserved.

samal@samal.is
www.samal.is

Afskrá af lista   Uppfæra stillingar 

Email Marketing Powered by Mailchimp