Copy
Birtast myndirnar ekki? Skoða í vafra
29. apríl 2016

Fréttabréf Samáls

Kjarni álsins

Fréttabréf Samáls, samtaka álframleiðenda, kemur nú út í fyrsta skipti í vor. Tilgangurinn með þessari útgáfu er að stuðla að upplýstri umræðu um áliðnað á Íslandi. Umsjón hefur Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls. Ef þú hefur ekki áhuga á að vera á þessum póstlista getur þú afskráð þig hér.

Ársfundur Samáls 18. maí


Ársfundur Samáls verður haldinn í Kaldalóni í Hörpu 18. maí næstkomandi undir yfirskriftinni Grunnstoð í efnahagslífinu. Boðið verður upp á morgunverð frá 8:00, en fundurinn hefst 8:30. Á meðal fyrirlesara verða Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra, Magnús Þór Ásmundsson stjórnarformaður Samáls, Guðrún Sævarsdóttir forseti tækni- og verkfræðideildar HR, Carlos Cruz forstjóri Vífilfells, Gunnar Tryggvason frá KPMG og sérfræðingur frá greiningarfyrirtækinu CRU. Nánari dagskrá verður auglýst síðar. Fundinum lýkur 10:00 og verður þá boðið upp á kaffi og pönnukökur af íslenskum pönnum, ásamt forvitnilegri sýningu á fleiri hlutum úr smiðju Málmsteypunnar Hellu, en það fjölskyldufyrirtæki hefur um áratuga skeið framleitt hluti úr áli sem ýmist er endurunnið eða frumframleitt hér á landi. Hér má sjá myndskeið um hönnun verðlaunagrips í Söngkeppni framhaldsskólanna, sem unninn var í samstarfi Garðars Eyjólfssonar lektors við LHÍ og Málmsteypunnar Hellu. Hér má sjá umfjöllun um ársfund Samáls í fyrra og hér er myndskeið með stuttri samantekt.
Mynd:
Florian Lohse.

Endurvinnsla áls, vegvísir að sjálfbæru efnahagslífi

 
Endurvinnsla áls, vegvísir að sjálfbæru efnahagslífi er útgáfa European Aluminium, samtaka áliðnaðar í Evrópu, um endurvinnsluiðnaðinn í Evrópu, en þar gegnir ál veigamiklu hlutverki. Hér mál lesa skýrsluna í íslenskri útgáfu.Álver, raforka og þjóðbúningar


Á dag­inn stýr­ir Eyrún Linn­et raf­veitu sem gæti séð Manchester­borg eða Mong­ól­íu fyr­ir raf­magni í ál­ver­inu í Straums­vík. Eft­ir vinnu saum­ar hún þjóðbún­inga sem hún seg­ir bæði ávana­bind­andi en einnig að handa­vinn­an færi ró sem sé hægt að líkja við hug­leiðslu. Öflugur iðnaður, gott líf er þema þáttanna Fagfólkið á Mbl.is. Hér má horfa á þáttinn um Eyrúnu.


Að hugsa í annaðhvort eða...

Eitt af einkennum þjóðmálaumræðunnar er að fólki hættir til að hugsa í annaðhvort eða...

Nú er Boris Johnson þingmaður og borgarstjóri Lundúna með meiru kominn í fylkingarbrjóst þeirra sem vilja að Bretar gangi úr Evrópusambandinu. Gott og vel, en það þýðir samt ekki að honum sé í nöp við Evrópusambandið. Eitt sinn tók hann sérstaklega fram í viðtali að hann væri Evrópusinni: „Ég vil sannarlega evrópskt samfélag þar sem maður getur hámað í sig croissant, drukkið dýrindiskaffi, lært erlend tungumál og almennt notið ásta með erlendum konum.“

Þegar uppgangur bankanna var hvað mestur í aðdraganda hrunsins birtist viðtal við einn framámanna bankanna sem sagði áliðnað og sjávarútveg óspennandi, þar sem arðsemin væri lítil. En fyrirtæki í áliðnaði og sjávarútvegi stóðu bankakreppuna af sér og skiluðu miklum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið þegar mest lá við. Í Egilssögu er traustri afkomu Skallagríms lýst þannig: „Stóð þá mörgum fótum fjárafli Skallagríms.“ 
Nú er uppgangur í ferðaþjónustu og er það vel. Þar varðar miklu að innviðir hafa byggst upp á liðnum áratugum í kringum grunnatvinnuvegi á borð við sjávarútveg og orkuiðnað. En gróskan í ferðaþjónustu dregur ekki úr vægi annarra greina. Þvert á móti styrkir það og breikkar grundvöll efnahagslífsins að hafa margar stoðir undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá árinu 2009 segir: „Áratuga reynsla Íslendinga af einhæfum útflutningi sjávarafurða með tilheyrandi sveiflum, bæði vegna aflabrests heima og verðsveiflna á erlendum mörkuðum, undirstrikar mikilvægi þess að búa við stöðugt gengi. Almennt gildir sú regla að því fjölbreyttari sem útflutningur er því minni verða ófyrirséðar sveiflur á verðmæti hans.”

Hvort tveggja og rúmlega það.

Pétur Blöndal

Pistillinn birtist fyrst á baksíðu Viðskiptablaðsins 26. febrúar á þessu ári. 

 

Léttari bílafloti leiðin til að draga úr losun CO2


Rannsókn Evrópsku umhverfisstofnunarinnar eða European Climate Foundation Fuelling Europe’s Future sýnir að ein skilvirkasta leiðin til að draga úr losun CO2 í heiminum er að létta bílaflotann. Fram kemur að ná megi markmiðum um léttingu bifreiða með því breyta hönnunarferlinu, svo sem á sætum og innréttingum, ásamt því að auka notkun á hástyrktarstáli og áli í grind þeirra. Ennfremur segir í skýrslunni að rannsóknir sýni að með þessu móti sé unnt að létta bifreiðar um að minnsta kosti 20% fyrir árið 2020 án verulegs kostnaðar og án þess að draga úr gæðum bifreiðanna. Búist er við að framkvæmdastjórn ESB ljúki stefnumörkun fyrir minni kolefnislosun í Evrópu í júní á þessu ári.Alcoa styrkir uppbyggingu náms í efnisfræði og málmfræði


Á málstofu sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík (HR) fimmtudaginn 7. apríl, afhenti Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls skólanum styrk til áframhaldandi eflingar rannsókna og kennslu í efnisverkfræði og málmfræði á háskólastigi. Umfjöllunarefni málstofunnar var efnisverkfræði í sjálfbærri álframleiðslu. Hún var önnur í röð fjögurra málstofa í HR sem fjalla um lífstoðefni, ál, efni sem notuð eru við orkuskipti og áskoranir á sviði jarðhita. Sú þriðja verður haldin 2. maí undir yfirskriftinni Áskoranir í efnisfræði. Aðgangur er öllum opinn og stendur málstofan frá 13-17 í stofu M209 í HR. Hér má fræðast nánar um hana.

Alcoa vill efla háskólamenntun á Íslandi
Magnús Þór sagði Samfélagssjóð Alcoa veita fé til verkefna sem tengjast umhverfi, menntun og fræðslu og samfélagsþátttöku starfsfólks. „Samfélagssjóður Alcoa, (Alcoa Foundation) hefur frá árinu 1952 veitt um 590 milljónir dollara til ýmissa verkefna. Það er okkar hlutverk hjá Fjarðaáli að sýna fram á tækifærin á Íslandi og hafa jákvæð samfélagsáhrif en það hefur tekist vel því sjóðurinn hefur komið að fjölmörgum áhugaverðum verkefnum hér. Því til viðbótar veitir Alcoa Fjarðaál samfélagsstyrki á hverju ári fyrir um 140 milljónir króna, þar sem stærsta framlagið á hverju ári hefur verið til Vina Vatnajökuls sem styður við verkefni um rannsóknir og fræðslu á áhrifasvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. 
 

 
Áhugavert framhaldsnám sem sinni þörfum áliðnaðar
Magnús Þór sagði að áliðnaðurinn væri aðlaðandi fyrir nýútskrifaða verkfræðinga og því þyrfti að halda á lofti. „Hjá Fjarðaáli starfa í dag um 90 háskólamenntaðir einstaklingar. Auk þess kaupir fyrirtækið stöðugt þjónustu af fjölda verkfræðifyrirtækja og verktaka með tækniþekkingu. Þó að áliðnaður teljist til grunnatvinnuvegar á Íslandi hafa nemendur þurft að sækja framhaldsmenntun á sviðinu til útlanda. Það er gott að víkka sjóndeildarhringinn en það er engu að síður mín von að hér sé að verða til vísir að áhugaverðu framhaldsnámi sem sinnir þörfum áliðnaðar og verður að lokum sjálfbært og eftirsótt af nemendum."
 
Magnús Þór benti á að HR hafi sýnt mikið frumkvæði í málinu og færði skólanum þakkir fyrir það. Þá tók hann fram að Guðrún Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar, hafi fylgt málinu sérstaklega vel eftir. Jafnframt sagði hann: „Það má líka geta þess að Rauan Meirbekova sem nú er í hlutverki verkefnisstjóra hjá HR meðal annars við uppbyggingu þessa náms varði doktorsverkefni sitt á síðasta ári um áhrif óhreininda á straumnýtni í rafgreiningu en doktorsverkefnið var unnið í samvinnu við og styrkt af Fjarðaáli. Það er því með mikilli ánægju sem að ég veiti skólanum núna styrk frá Samfélagssjóði Alcoa upp á 100 þúsund dollara til að byggja undir framhaldsnám á sviði efnis- og málmvísinda.“ Þess má geta að 100 þúsund dollarar eru um 12,4 milljónir króna á núverandi gengi. 
 
Hlutverk HR að efla samkeppnishæfni
Það var Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sem veitti styrknum viðtöku. Hann sagði ál- og málmiðnað vera eina af grunnstoðum efnahagslífsins. „Við höfum rætt það hér meðal okkar innanhúss og með fyrirtækjum að efling menntunar og rannsókna á þessu sviði sé verkefni sem skiptir máli. HR er stærsti tækniháskóli landsins, og er líka háskóli atvinnulífsins. Það er því okkar hlutverk að efla samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja með nýsköpun, samstarfi og rannsóknum. Við þökkum kærlega fyrir þennan stuðning í verki og fyrir þá framsýni að fjárfesta í uppbyggingu menntunar á háskólastigi og hlökkum til samstarfsins á næstu árum.“
 
Efnisverkfræði kemur við sögu í flestum tækninýjungum
Verið er að auka veg efnisverkfræði sem fræðasviðs við Háskólann í Reykjavík. Þetta svið verkfræðinnar er tengt málmfræði og þéttefnisfræði og hefur áhrif á flestar tækninýjungar. Ísland er að mörgu leyti ákjósanlegur staður til kennslu og rannsókna í efnisverkfræði enda eru framleidd hér á landi meira en 800.000 tonn af áli á hverju ári og kísilframleiðsla eykst hratt. Þrátt fyrir að þessi iðnaður sé afar mikilvægur atvinnulífinu, hefur lítið verið um rannsóknir á þessu sviði á Íslandi. 

Samið í Straumsvík

Miðlun­ar­til­laga rík­is­sátta­semj­ara vegna kjara­deil­unn­ar í Straums­vík var samþykkt með 61,5% at­kvæða. Starfs­menn ál­vers Rio Tinto í Straums­vík fá 12,7% launa­hækk­un og aft­ur­virk­ar launa­hækk­an­ir í formi 490 þúsund króna ein­greiðslu. Þá munu laun hækka í sam­ræmi við SALEK-sam­komu­lagið til árs­loka 2018 og síðan um tvö pró­sent í árs­byrj­un 2019. Samn­ing­ur­inn gild­ir fram á vor 2019. „Bæði starfs­menn og fyr­ir­tækið telja þessa niður­stöðu ásætt­an­lega,“ sagði Ólafur Teitur Guðnason í samtali við Morgunblaðið af þessu tilefni.

Samn­ing­ur­inn nær til 330 starfs­manna ál­vers­ins að sögn Ólafs Teits. Hann seg­ir að það verði áfram mikið for­gangs­atriði hjá ál­ver­inu að auka sam­keppn­is­hæfni fyr­ir­tæk­is­ins þannig að það geti staðið und­ir þess­um miklu launa­hækk­un­um og laun­um sem fyr­ir séu há hjá fyr­ir­tæk­inu. „Það verður talsverð áskorun. En ISAL er stolt af því að hafa um árabil ekki aðeins greitt hærri laun en gengur og gerist á markaðinum heldur einnig verið í fararbroddi í margvíslegum öðrum hagsmunamálum starfsmanna, svo sem menntamálum, öryggismálum og jafnréttismálum,“ segir Ólafur Teitur.


Ál í hnotskurn


Á vefnum Álsagan eða The Aluminium Story má nálgast aðgengilegar upplýsingar um álframleiðslu á öllum stigum, notkunina, efnið sjálft og endurvinnslu þess. Þrjú stutt og vönduð fræðslumyndskeið frá IAI verið þýdd yfir á íslensku, en þau bera yfirskriftina „Ál í hnotskurn“:

Efnið       Endurvinnsla       Sterkt og létt
 
Share
Tweet
Forward
Copyright © 2016 Samál - Samtök álframleiðenda á Íslandi, All rights reserved.


Afskrá af lista   Uppfæra stillingar 

Email Marketing Powered by MailChimp