Álver, umhverfið og losun gróðurhúsalofttegunda
Mikilvægt er að leiðtogar heimsins nái saman um metnaðarfullar niðurstöður á loftslagsráðstefnunni í París. Þar varðar miklu að allir sitji við sama borð og að losun sé einungis skattlögð í sumum ríkjum en ekki öðrum.
Íslensk álver greiða tæplega 300 milljónir fyrir losunarheimildir á ári, en þrátt fyrir að kveðið sé á um það í reglukerfi ESB, þá hafa ekki enn runnið tekjur af ETS-kerfinu til Íslands. Samkvæmt upplýsingum stjórnvalda hefur ríkissjóður þó ekki orðið af neinum greiðslum og munu þær renna í ríkissjóð þótt síðar verði.
Dregið úr losun um 75% frá 1990
Íslendingar eru á meðal fjölmargra ríkja í heiminum sem framleiða ál. Á heimsvísu eru stórveldin Kína, Bandaríkin og Rússland fyrirferðarmest. Ef litið er til Evrópu er mest framleitt af áli í Noregi. Ísland kemur þar á eftir. Og síðan lönd á borð við Þýskaland, Frakkland, Svíþjóð, Holland og Spán.
Ekki verður komist hjá því við rafgreiningu áls að hún valdi losun gróðurhúsalofttegunda, sama hvar á hnettinum framleiðslan á sér stað. En losunin er mismikil eftir álverum.
Á Íslandi hefur tekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn um 75% frá árinu 1990, samanborið við 50% í evrópskum áliðnaði á sama tímabili. Hér á landi er losun gróðurhúsalofttegunda um 20% minni en almennt þekkist í Evrópu og er þó álframleiðsla hvergi umhverfisvænni.
En öfugt við það sem margir halda, þá er losunin á heimsvísu þó ekki mest vegna framleiðslu álsins, heldur orkunnar sem knýr álverin. Þröstur Guðmundsson PhD, stundakennari við HR og framkvæmdastjóri álsviðs HRV, hefur dregið saman að heildarlosun frá íslenskum álverum, ef orkugjafar eru meðtaldir, er sexfalt minni en sambærilegra álvera sem reist hafa verið í Mið-Austurlöndum og knúin eru af gasorku. Þá er hún tífalt minni en frá kínverskum álverum sem knúin eru af kolaorku.
Kolefnisfótspor íslensks áls
Eftirspurn eftir áli á heimsvísu hefur verið ört vaxandi á síðustu árum. Ástæðan er fyrst og fremst álbylting í bílaiðnaðinum sem orsakast af kröfum stjórnvalda, einkum á Vesturlöndum, um að létta bílaflotann og draga þannig úr brennslu eldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda. Þar sem ál er léttur en um leið sterkur málmur, þá er það best til þess fallið að ná þessu markmiði.
Þröstur Guðmundsson hefur bent á að um 70% af öllu áli sem framleitt sé í álverum á Íslandi fari í samgöngutæki í Evrópu. Sparnaðurinn í losun gróðurhúsalofttegunda af þeirri álnotkun sé tvöfalt meiri, en sem nemi allri losun við frumframleiðslu áls hér á landi.
Ef tekið sé með í myndina að ál má endurvinna nær endalaust og að ál sem fer í samgöngutæki er nýtt aftur og aftur, þá megi reikna með að sparnaðurinn af losun gróðurhúsalofttegunda við notkun áls frá Íslandi í bílaframleiðslu í Evrópu sé sextánfaldur á við losun af frumframleiðslu álsins hér á landi. Þá sé losunin tífalt minni á Íslandi en frá álverum sem knúin eru með kolaorku, en það á við um meginþorra álvera í Kína.
Hér er ótalið að verulegur sparnaður í losun hlýst af notkun áls í aðrar vörur. Það á til að mynda við um matarumbúðir úr áli, sem eru léttar í flutningi og endurvinnanlegar, hafa langan endingartíma og draga úr sóun matvæla. Þá er ál notað í byggingarefni með bættri orkunýtingu, sem dregur þar með úr losun vegna orkuframleiðslu.
Virkjum samtakamáttinn í París
Það er því áhyggjuefni að álframleiðsla hefur á liðnum árum verið að flytjast í auknum mæli frá Evrópu til annarra heimshluta þar sem losun er margfalt meiri, einkum til Kína og Mið-Austurlanda. Það verður að teljast öfugþróun.
Á loftslagsráðstefnunni í París hafa yfir 160 ríki heitið því að leggja sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en saman ná þessar yfirlýsingar til yfir 90% af losunar á heimsvísu. Í bréfi sem Gerd Götz framkvæmdastjóri Evrópsku álsamtakanna hefur skrifað Cristiönu Figueres, sem leiðir umræðurnar, er undirstrikað mikilvægi þess að samstaða náist um markverða niðurstöðu.
Til þess að niðurstaðan megi teljast markverð, þá verði samkomulagið að fela í sér almennar reglur, sem fylgt sé eftir á reglubundinn og raunsæjan hátt, og að finna þurfi leiðir til að tengja saman kerfi losunarheimilda milli ríkja og heimsálfa. Hér eru fjögur mál sem Evrópsku álsamtökin setja á oddinn fyrir Parísarfundinn:
- Skilvirkt og fyrirsjáanlegt kerfi um losunarheimildir (ETS) sem tryggir samkeppnishæfni Evrópu þar sem álframleiðsla er einna umhverfisvænst og að fyrstu skref verði mörkuð að samræmdu kolefnisgjaldi á heimsvísu;
- Metnaðarfull áætlun um hringrásar hagkerfi (circular economy) með bindandi markmiðum um endurvinnslu samhliða hvötum til fjárfestinga í öflugri söfnunarleiðum og nýsköpun í flokkun og vinnslu. Þannig helst verðmætt efni í hringrásinni og það dregur úr losun við frumframleiðslu úr áli;
- Gróskumeiri raforkumarkaður sem er ekki miðstýrður til að stuðla að því að framboð ráðist af eftirspurn og til að greiða fyrir framboði endurnýjanlegrar orku með beinum ávinningi fyrir evrópska kolefnisfótsporið;
- Skapa jákvæðar forsendur til að draga úr kolefnislosun samfélaga með vegvísum að ábyrgari aðferðafræði. Nefna má sem dæmi, að ál gerir bílaframleiðendum kleift að framleiða léttari og öruggari farartæki – þar með talið rafmagnsdrifnum – sem leiðir til minni kolefnislosunar og bættrar framleiðni notenda.
Hér má lesa bréfið í heild sinni.
|