Copy
Birtast myndirnar ekki? Skoða í vafra
3. júní 2016
Hér má sjá stutta samantekt frá ársfundi Samáls.

Fréttabréf Samáls

Kjarni álsins

Fréttabréf Samáls, samtaka álframleiðenda, kemur nú út í annað skipti á þessu ári. Tilgangurinn með þessari útgáfu er að stuðla að upplýstri umræðu um áliðnað á Íslandi. Til umfjöllunar er nýafstaðinn ársfundur Samáls. Þar var m.a. rætt um stöðu og horfur í áliðnaði, þróun orkuiðnaðar í Evrópu, framtíðarsýn náms á háskólastigi og kókdósir með íslenskum landsliðsmönnum - auðvitað úr áli. Einnig var opnuð sýning á sögu, framleiðsluferli og afurðum Málmsteypunnar Hellu. Umsjón hefur Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls. Ef þú hefur ekki áhuga á að vera á þessum póstlista getur þú afskráð þig hér.

Horft yfir sviðið á ársfundi Samáls

Grunnstoð í efnahagslífinu var yfirskrift ársfundar Samáls sem haldinn var 18. maí  í Hörpu. „Það var gaman að sjá hversu fundurinn var vel sóttur,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls. „Með yfirskriftinni er undirstrikað að áliðnaður skilar mikilvægum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið, kaup á raforku, ásamt innlendum vörum og þjónustu nema yfir 70 milljörðum og renna til hundruð fyrirtækja. Þá telja laun og launatengd gjöld um 16 milljarða og njóta um 1.500 starfsmenn góðs af því, en alls hefur Hagfræðistofnun áætlað að um 5 þúsund hafi starfa af áliðnaði og er þá ekki horft til eftirspurnaráhrifa. Þá nema skattar og opinber gjöld um sex milljörðum. Áliðnaður er grunnstoð í efnahagslífinu sem hefur ýtt undir verðmætasköpun og haft sveiflujafnandi áhrif á íslenskt efnahagslíf í áratugi.“

Hér má sjá stutta samantekt frá ársfundi Samáls.

Magnús Þór Ásmundsson segir álrafhlöður bæta endingartíma, stytta hleðslutíma og draga úr eldhættu. Útlit sé fyrir að þær gegni mikilvægu hlutverki við geymslu umframorku og tryggi þar með sókn endurnýjanlegrar raforku.  

Ál er mikilvægara en nokkru sinni fyrr


„Ál er mikilvægara en nokkru sinni fyrr“ var yfirskrift erindis Magnúsar Þórs Ásmundssonar stjórnarformanns Samáls. Í máli hans kom fram að íslensk álver keyptu vörur og þjónustu fyrir um 30 milljarða í fyrra af hundruðum íslenskra fyrirtækja. Alls námu innlend útgjöld álvera á Íslandi um 92 milljörðum og benti Magnús á að sú fjárhæð væri sambærileg við kostnaðinn við að byggja nýjan Landspítala. Álverin framleiddu rúm 858 þúsund tonn af áli og álafurðum árið 2015 og alls námu útflutningsverðmætin um 237 milljörðum.

Hér er upptaka af ræðu Magnúsar.
Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði að með Álklasanum hefði skapast tækifæri fyrir framsækið rannsókna- og þróunarstarf í samstarfi fyrirtækja, háskóla og stofnana.

Verðmætasköpun og sveiflujöfnun íslensks áliðnaðar

 

„Það var stór viðburður í atvinnusögu Íslands þegar Ísal, fyrsta álverið á Íslandi, hóf starfsemi í Straumsvík árið 1969 með 33 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Íslendingar voru stoltir af þessu iðjuveri sem setti alþjóðlegan brag á fábrotið atvinnulífið,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra í ávarpi sínu á ársfundi Samáls, sem lesa má á vef viðskipta- og iðnaðarráðuneytisins.

Hún stóðst ekki mátið og bætti við: „Það var einnig mikilvægur vitnisburður um framfarahug þjóðarinnar þar sem það stóð reisulegt við Reykjanesbrautina á leiðinni frá alþjóðaflugvellinum til höfuðborgarinnar.“

Það er leið sem Ragnheiður Elín þekkir mæta vel frá ferðum sínum til og frá heimilinu í Reykjanesbæ. Hún klykkti út með: „Ál- og orkuiðnaðurinn hefur á þessum tæpu 50 árum treyst grundvöll íslensks efnahagslífs svo um munar, aukið verðmætasköpun í landinu og gert okkur betur kleift að takast á við ytri aðstæður og sveiflur í efnahagslífinu.“ 

Hér er upptaka af ræðu Ragnheiðar Elínar.

Kelly Driscoll ræddi stöðu og horfur á álmörkuðum. Hann segir raforkuna lykilþátt í samkeppnishæfni álvera.

Græn álframleiðsla hærra verðlögð í framtíðinni


„Energy Drives Aluminium Into the Future“ var yfirskrift erindis Kellys Driscoll sérfræðings frá greiningarfyrirtækinu CRU. Þar ræddi hann stöðu og horfur í áliðnaði á heimsvísu. Hann sagði lágt álverð fela í sér áskorun fyrir áliðnaðinn, en á móti kæmi að framleiðslukostnaður hefði lækkað. Skýringin á því fælist í meiri framleiðni álvera, lokun álvera sem bera háan framleiðslukostnað og einnig lækkun raforkuverðs á heimsvísu. Til lengri tíma litið væri jákvætt að vöxtur eftirspurnar yrði áfram öflugur og að gerir CRU ráð fyrir að álverð fari hækkandi á næstu árum. Hann lýsti þeirri skoðun að það væri einungis tímaspursmál hvenær hægt yrði að markaðssetja „græna“ álframleiðslu á hærra verði á lykilmörkuðum.

Hér er upptaka af erindi Driscolls.
Vegferðin er hafin með námi í málmgreinum við HR og frekari uppbygging byggir á samstarfi fleiri háskóla og atvinnulífsins, að sögn Guðrúnar Sævarsdóttur.

Skapa þarf hagstætt umhverfi fyrir rannsóknir

„Efnisverkfræði á Íslandi – horft til framtíðar“ var yfirskrift erindis Guðrúnar Sævarsdóttur forseta tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Hún fjallaði í erindi sínu um efnisfræði og efnisverkfræði og sagði það lykilgreinar fyrir alla tækniþróun í nútímasamfélagi.

Þá kom hún inn á möguleika á uppbyggingu kennslu og rannsókna á sviðinu, en til þess yrðu stjórnvöld að skapa hagstæð skilyrði, þannig að fyrirtæki sæju sér hag í að styrkja rannsóknir og þróun hér á landi. Fram kom að umhverfið í Kanada væri til að mynda mun hagstæðara fyrirtækjum en hér. Fyrir vikið væri erfitt fyrir íslenska háskóla að keppa um rannsóknar- og þróunarverkefni, sem væru þó forsenda öflugs háskólastarf og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. 

Hér er upptaka af erindi Guðrúnar.

Gunnar Tryggvason sagði að hvergi í heiminum væri jafn þétt þekking á rekstri álvera og á Íslandi. Umgjörðin á Íslandi væri mjög góð.

Flutningskostnaður raforku hærri á Íslandi

„Breytingar á evrópskum orkumarkaði – áhrif þeirra á samkeppnishæfni Íslands“ var yfirskrift erindis Gunnars Tryggvasonar verkefnastjóra hjá KPMG. Hann sagði raforkuna áhrifamestu breytuna í framleiðslukostnaði álvera, en breytileiki í kostnaði á milli álvera á heimsvísu væri skýrður að 2/3 leyti af raforku og vitnaði Gunnar þar til upplýsinga sem fram komu í erindi Driscolls fyrr á fundinum.

Fram kom í máli Gunnars að raforkuverð í samkeppnislöndum Íslands hefði lækkað. Svo rammt hefði kveðið að því að í 25 skipti í fyrra hafi notendur orkunnar í Þýsklandi fengið greitt fyrir notkunina frá orkufyrirtækjum. Gunnar sagði skýringuna liggja í minni hagvexti, meiri orkusparnaði, lægra gasverði og hraðri uppbyggingu grænnar orku, en það síðastnefnda væru langtímaáhrif.

Loks kom fram í máli hans að flutningskostnaður raforku væri yfir 50% hærri en í Noregi, sem væri okkar helsta samkeppnisland og svipaði mest til Íslands hvað varðar uppbyggingu raforkukerfisins. Raunar væru dæmi um að kostnaðurinn væri þrefalt hærri hér vegna stórnotendaafsláttar sem innleiddur hefði verið hjá Statnett í Noregi.  

Hér er upptaka af erindi Gunnars.

Carlos Cruz, nýr forstjóri Vífilfells, lýsti mörgum kostum áls sem drykkjarumbúðum.

Íslenskir landsliðsmenn í knattspyrnu á kókdósum

„Carbonated Drinks Love Aluminium“ var yfirskrift erindis Carlos Cruz forstjóra Vífilfells. Hann gerði grein fyrir mikilvægi áls fyrir afurðir Vífilfells, en það fælist meðal annars í léttleika og styrkleika efnisins, betri nýtingu við flutninga og endurvinnslu umbúðanna, en reynslan sýndi að hærra hlutfall áls væri endurnýtt en annarra efna. Þá frumsýndi hann kókdósir með myndum af íslenskum landsliðsmönnum í knattspyrnu sem framleiddar eru í tilefni af Evrópumótinu í knattspyrnu.  

Hér er upptaka af erindi Cruz.

Grétar Már og Leifur Þorvaldssynir vísuðu Ragnheiði Elínu veginn um sýningu Málmsteypunnar Hellu á ársfundi Samáls. Svanhildur móðir þeirra bakaði pönnukökur með Arnþrúði tengdamóður Grétars - auðvitað á pönnum frá Hellu!

Ævintýraleg saga Málmsteypunnar Hellu

Að loknum ársfundi var opnuð sýning á vörum og gripum sem framleiddir hafa verið af Málmsteypunni Hellu, framleiðsluferlinu og sögu þessa öfluga fjölskyldufyrirtækis, en það hefur um áratugaskeið framleitt úr áli sem ýmist eru frumframleitt hér á landi eða endurunnið.

Óhætt er að segja að saga fyrirtækisins sé ævintýraleg en þegar það var stofnað fyrir 67 árum voru við lýði það ströng innflutningshöft að notast var við brotamálm úr flugvélaflökum frá stríðsárunum til að steypa hina ýmsu muni. Það var vel við hæfi að margar kynslóðir komu að uppsetningu sýningarinnar, þar með talið að því að baka pönnukökur – auðvitað á pönnukö>kupönnum frá Málmsteypunni Hellu.

Hér má skoða myndskeið sem sýnt var á ársfundinum og sýnir vel merkilega sögu Málmsteypunnar Hellu.

Hér má sjá myndskeið um hönnun verðlaunagrips í Söngkeppni framhaldsskólanna, sem unninn var í samstarfi Garðars Eyjólfssonar lektors við LHÍ og Málmsteypunnar Hellu, en það var Samál sem stóð straum af kostnaði við hönnun og framleiðslu verðlaunagripsins.

Share
Tweet
Forward
Copyright © 2016 Samál - Samtök álframleiðenda á Íslandi, All rights reserved.


unsubscribe from this list    update subscription preferences 

Email Marketing Powered by MailChimp