Copy
Landvernd - Skólar á grænni grein - nr. 3 2015
Skoða í nýjum glugga

Sumarfréttabréf Skóla á grænni grein

Skólaárið sem senn er á enda runnið hefur verið viðburðaríkt hjá Skólum á grænni grein, enda 236 skólar skráðir í verkefnið um allt land. Unnið hefur verið að ýmsum nýjungum í vetur sem skólar fá að kynnast betur á komandi vetri. 

Skrefin sjö - nýjar áherslur
Nýjungarnar snúa fyrst og fremst að skrefunum sjö og hvernig þau eru stigin, en stefnan er að gera vinnu við þau enn markvissari og nemendamiðaðri. Verið er að þróa nýja gátlista sem aðlagaðir eru hverju skólastigi og auðvelda þannig nemendunum sjálfum að meta stöðu umhverfismála innan skólans. Einnig verður skólum kynnt markvissara kerfi við markmiðssetningu, eftirlit og endurmat. Þessar nýjungar munu jafnframt auðvelda fulltrúum Landverndar að meta starf skólanna í verkefninu.

Ný þemu í verkefninu
Á stýrihópsfundi Skóla á grænni grein á vordögum var ákveðið að bæta við þemum sem skólar geta unnið með innan verkefnisins. Ný þemu eru neysla, hnattrænt jafnrétti, náttúruvernd og vistheimt. Jafnframt var þemað sjálfbærni tekið út þar sem verkefnið í heild sinni snýst um sjálfbærni í skólastarfi og því óþarft að hafa það sem sérstakt þema. Önnur þemu haldast óbreytt. Lista yfir öll þau þemu sem í boði eru má finna hér

Stefnt er að því að kynna ofantaldar breytingar, ásamt fleiru, á fundum á vegum Skóla á grænni grein sem haldnir verða um allt land á komandi vetri.

Skólar á grænni grein og Aðalnámskrá
Skólar á grænni grein hafa hlotið styrk frá Þróunarsjóði námsgagna til að vinna efni sem sýnir hvernig vinna megi með grunnþætti Aðalnámskrár innan Skóla á grænni grein. Grunnþættirnir sex, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun og læsi falla allir afar vel að markmiðum Skóla á grænni grein. Efnið verður birt á heimasíðu verkefnisins og geta allir skólar nýtt sér það. Stefnt er að útgáfu í lok árs 2016. 
Nýr starfsmaður
Caitlin Wilson var nýverið ráðin til starfa til að vinna að sérverkefni innan Skóla á grænni grein. Caitlin er umhverfisfræðingur og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með áherslu á menntun til sjálfbærni. Verkefni Caitlinar hjá Skólum á grænni grein snýr að því að auðvelda skólum að vinna með þemu sem skólum hafa reynst erfið. Í fyrstu mun Caitlin einbeita sér að þemunum loftslagsbreytingar og lífbreytileiki.
Við minnum á að frestur til að skila inn umsókn fyrir úttekt í september rennur út 1. ágúst! Leiðbeiningar fyrir greinargerð sem á að fylgja umsókn er að finna hér.

Skólar á grænni grein óska nemendum og kennurum um allt land gleðilegs sumars, með kæru þakklæti fyrir samvinnuna í vetur!

Hlökkum til samstarfs á komandi vetri!


   
Skólar á grænni grein á Facebook
Skólar á grænni grein á Facebook
Heimasíða Skóla á grænni grein
Heimasíða Skóla á grænni grein
© Landvernd, Skólar á grænni grein, 2015 

Skólar á grænni grein
Landvernd
Þórunnartún 6
105 Reykjavík

www.graenfaninn.landvernd.is      www.eco-schools.org