Copy
Landvernd - Skólar á grænni grein - nr. 5, 2015
Skoða í nýjum glugga

Jólafréttabréf Skóla á grænni grein 

Nú er árið senn á enda og hefur ýmislegt á dagana drifið hjá Skólum á grænni grein. Það sem helst ber að nefna eru breytingar sem áttu sér stað á árinu og voru kynntar á landshlutafundum nú í haust. Nánar má lesa um breytingarnar og landshlutafundina hér að neðan. Úttektir og afhendingar fóru fram á landinu öllu í ár sem endranær og hefur fjöldi þeirra haldist nokkuð stöðugur á milli ára. Við óskum þeim skólum sem fengu Grænfánann afhentan í ár innilega til hamingju með vel unnin störf!

Landshlutafundir
Landshlutafundir Skóla á grænni grein voru haldnir á níu stöðum á landinu í október og nóvember. Fundirnir voru vel sóttir en samtals tóku 250 kennarar og aðrir starfsmenn skóla þátt í fundunum. Á fundunum var í upphafi farið yfir hugtakið sjálfbærni og sjálfbærnimenntun og hvernig vinna við Grænfánaverkefnið grundvallast á henni. Þar var meðal annars rætt um grunnþætti nýju aðalnámskrárinnar sem tengjast beint áherslum verkefnisins. Þá voru breytingar á framkvæmd skrefanna sjö kynntar og verkefni unnin í tengslum við hvert skref. Auk þess voru breytingar á úttektarfyrirkomulagi kynntar. Nánar má lesa um þessar breytingar hér á eftir. Á myndinni sjást þátttakendur á landshlutafundi í Leikskólanum Leikholti í Brautarholti. Hér að neðan er hlekkur á kynningu landshlutafundanna: 
Áherslubreytingar - Skrefin sjö
Eftirfarandi áherslubreytingar hafa átt sér stað við framkvæmd skrefanna sjö:
 • Nýtt umhverfismat (2. skrefið) er í vinnslu sem mun taka til hvers þema í verkefninu. Annars vegar verður um að ræða mat fyrir nemendur leikskóla og yngsta stig grunnskóla, hins vegar mat fyrir nemendur eldri stiga grunnskóla og framhaldsskóla. Enn er aðeins tilbúið mat fyrir úrgangsþemað en þátttakendur landshlutafundanna aðstoðuðu við að gera mat fyrir hin þemun. Stefnt er að því að þau verði tilbúin í byrjun nýs árs. Hér má hlaða niður mati fyrir þemað úrgang:
 • Nýtt markmiðssetningareyðublað (3. skrefið) hefur verið útbúið til að auðvelda skólum að setja sér markmið auk þess sem það kemur að góðum notum við eftirlit og endurmat (4. skrefið). Hægt er að hlaða niður eyðublöðum fyrir markmiðssetningu hér að neðan: 
 • Verkefnakistan á heimasíðu Landverndar er hugsuð til að auðvelda skólum vinnu við námsefnisgerð og verkefni (5. skrefið). Frá og með áramótum skila skólar inn verkefni í verkefnakistuna með hverri umsókn. Hlekkur á verkefnakistuna er hér að neðan: 
Nýtt úttektarfyrirkomulag
Á landshlutafundunum var nýtt úttektarfyrirkomulag jafnframt kynnt, breytingarnar eru eftirfarandi: 
 • Umsókn: Eftirfarandi skal fylgja umsókn (hægt er að hlaða niður skjölum með því að smella á hlekkina): 
 • Úttekt: Eftir að umsókn hefur verið skilað mæta starfsmenn Landverndar í úttekt og fylgja þar ákveðnu úttektareyðublaði. Hægt er að hlaða niður eyðublaðinu til að sjá hvaða atriði eru skoðuð í úttekt (ágætt að nota sem gátlista fyrir skrefin sjö). Eftir úttektina fá skólar senda endurgjöf frá Landvernd þar sem fram kemur hvað var vel gert og hvað mætti bæta, bæði varðandi skrefin sjö og þau markmið sem skólar settu sér. Þar kemur einnig fram hvort skólar fái að flagga Grænfánanum til næstu tveggja ára. 
 • Tímabil: Vegna hagræðingar hefur úttektartímabilum fækkað í þrjú auk þess sem landshlutum fjarri höfðuborgarsvæðinu stendur eingöngu til boða eitt tímabil. Skólum sem eru í um tveggja tíma akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu stendur til boða að fá úttekt á öllum tímabilunum. Úttektartímabilin eru eftirfarandi, (landshlutar fjarri höfuðborgarsvæðinu eru tilgreindir innan sviga): 
  • September og október, umsóknarfrestur til byrjun ágúst (Austur- og Norðausturland)
  • Febrúar og mars, umsóknarfrestur til byrjun janúar
  • Maí og júní, umsóknarfrestur til byrjun apríl (Norðurland og Vestfirðir)
Alþjóðlegur fundur Skóla á grænni grein
Starfsmenn Skóla á grænni grein fóru á alþjóðlegan fund verkefnisstjóra í Belfast í Norður-Írlandi fyrr í haust. Á fundinum kom margt áhugavert fram, meðal annars var rætt um hvernig best væri að meta árangur af verkefninu, mikilvægi tengslanets og þess að skiptast á hugmyndum, alþjóðamarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru kynnt (nánar hér) auk þess var farið í heimsókn í skóla sem stendur sig afar vel í verkefninu, m.a. fer enginn úrgangur frá þeim í urðun! Frétt um heimsóknina frá BBC má sjá hér.

Við viljum líka benda ykkur á nýja heimasíðu Eco-Schools, alþjóðlega Grænfánans, endilega kíkið á hana til að fá frekari upplýsingar um verkefnið: http://www.ecoschools.global/ 

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári!

Með kærri þökk fyrir samstarfið á liðnu ári!

Með kveðju, 
Starfsfólk Landverndar

 
© Landvernd, Skólar á grænni grein, 2015 

Skólar á grænni grein
Landvernd
Þórunnartún 6
105 Reykjavík

www.graenfaninn.landvernd.is      www.eco-schools.org