Copy
Landvernd - Grænfáninn 2014
Skoða í vafra

Jólafréttabréf Skóla á grænni grein 2014

Nú er árið senn á enda og hefur það að vanda verið viðburðaríkt hjá Skólum á grænni grein. Nú er 231 skóli skráður til leiks með samtals yfir 45 þúsund nemendum og tæplega 5000 kennurum og öðrum starfsmönnum. Heildarfjöldi þeirra sem tekur þátt í verkefninu hér á landi er því um 50 þúsund manns! Samtals fóru 90 Grænfánaafhendingar fram á árinu, þar af fengu tveir skólar Grænfánann í 7. sinn en það voru Fossvogsskóli og Grunnskóli Borgarfjarðar á Hvanneyri. Það eru fyrstu tveir skólarnir sem ná þeim áfanga hér á landi. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn sem og öllum þeim skólum sem náðu markmiðum sínum og fengu Grænfánann afhentan á árinu!

Mannabreytingar
Í lok árs lét Gerður Magnúsdóttir af störfum hjá Landvernd. Gerður er ykkur flestum kunn, enda hefur hún starfað hjá Skólum á grænni grein s.l. fjögur ár. Hennar er sárt saknað, enda hefur hún sinnt starfinu af miklum dugnaði og eljusemi! Við starfi hennar tók Katrín Magnúsdóttir, sem hefur starfað hjá Landvernd frá haustinu 2013. Henni til halds og traust er Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir sem hefur starfað hjá Landvernd síðan í sumar og munu þær halda áfram að byggja upp hið góða starf sem unnið hefur verið hjá Skólum á grænni grein. 
Rafræn verkefnakista
Á næstu dögum mun verkefnakista líta dagsins ljós á heimasíðu Skóla á grænni grein. Hugmyndin er að kennarar hlaði inn verkefnum sem vel hafa tekist, sem svo munu nýtast öðrum. Nú þegar eru tólf verkefni í kistunni en ætlunin er að byggja hana upp smátt og smátt með ykkar hjálp. Næsta mánuðinn verður verkefnakistan prufukeyrð en hún verður svo opnuð formlega í Fjölbrautaskólanum við Ármúla þann 21. janúar. Allir skólar í verkefninu fá á næstunni sendan póst með hlekk inn á verkefnakistuna ásamt leiðbeiningum um notkun hennar og könnun um hvernig til hefur tekist. Okkur þætti afar vænt um að sem flestir sæju sér fært að taka þátt í prufukeyrslunni og könnuninni!
Alþjóðlegur fundur Skóla á grænni grein
Í byrjun desember fóru starfsmenn Skóla á grænni grein á alþjóðlegan fund verkefnisstjóra í Cardiff í Wales. Fundurinn var afar gagnlegur og mun nýtast vel við frekari þróun Skóla á grænni grein. Á myndinni má sjá hópmynd af verkefnisstjórum frá öllum heimshornum, en verkefnið er rekið í 59 löndum um allan heim!Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

 Með von um að þið náið að hvíla ykkur vel yfir hátíðarnar og mætið endurnærð til leiks á nýju ári!


Kveðja, 

starfsfólk Landverndar


    


 
Grænfáninn á Facebook
Grænfáninn á Facebook
Heimasíða Skóla á grænni grein
Heimasíða Skóla á grænni grein
Copyright © Landvernd, Skólar á grænni grein, 2014, All rights reserved.

Skólar á grænni grein
Landvernd
Þórunnartún 6
105 Reykjavík

landvernd.is/graenfaninn    www.eco-schools.org